This won’t make much sense if you don’t speak Icelandic, but the gist of it is, every year since we moved into our house in 2016, we’ve put together a treasure hunt for the kids, who still love it although the majority are teenagers or young adults by now.

For posterity, here are the clues from this Easter!

1.

Þvæ ég og þurrka
þó án sápuslurka
Vænt sem er vott
vindur sig, verður gott

Fyrsta vísbendingin var inní svona “salad spinner” þeytivindu.

2.

Steypan sprungin var um allt
Stálið gráa það er svalt
Sótið svart var ekki smart
Svo hér er nú kerti sívalt

Þessi vísbending vísar á stórt kerti með loki inní arninum okkar, en við létum nýlega klæða strompinn með gráum málmi.

3.

Skynjara hér mætti hafa
Hann næmi vatn, síður safa
Opnast en ekki upp á gátt
Hefur heldur ekki hátt

Þessi vísbending vísar á að næsta sé falin undir uppþvottavélinni okkar (sem opnast sjálfkrafa en ekki upp á gátt þegar hún er að klára að þvo).

4.

Eigi smiður ég var
En eigin verkfæri bar
Bróður minn fjandi fláði,
já, festing honum náði

Þessi vísbending vísar á lítið rennt hólf undir sófa sem við fengum okkur nýlega, þar sem voru geymd verkfæri til að klára að setja hann saman. Bróðir hans var alveg eins sófi sem kom fékk stóra áberandi skemmd í leðrið eftir límband.

5.

Nýir ná að lofti
nýtast fyrir stál
Gamlir hafa gildi
geyma leyndarmál

Við fengum okkur nýja forstofuskápa á síðasta ári, sem ná alveg uppí loft og þar sem við geymum meðal annars einn stóran stálpott. Eldri skápur niðri sem nær ekki uppí loft var með næstu vísbendingu.

6.

Þungum steini undir
þrír við stöndum hér
Orku erum bundnir
lokumst rétt við hné

Undir granítplötu á eldhúseyju eru þrír skápar, inní þeim eru rafmagnstenglar, þar var næsta vísbending.

7.

Smávinir með rentu
uns springur nýjabrum
Afgang frá aðventu
frændur rífast um

Við höfum verið að gefa fuglunum í vetur, laufabrauðsmulning sem er seldur sem fuglafóður, á bakka útí garði, næsta vísbending var undir bakkanum.

8.

Stóri bróðir minn býr
í báðum kössunum hýr
Tek ég hans hefðbundna stað
Nema þegar fólk fór forðum í bað

Ég keypti risastórt gervijólatré í Costco árið sem það opnaði, sem er í tveimur kössum útí bílskúr. Við erum með litla sæta plöntu sem líkist jólatré, og er utan jóla á sama stað og við höfum jólatréð. Vísbendingin var undir blómapottinum.

9.

Hér áður vin ég hafði
hann var stöng
Ég er þó ennþá hurð
þyki þröng

Uppá vegg í stofu er pínulítil hurð að háalofti, fyrir neðan hurðina var áður upphýfingarstöng en hún var tekin niður nýlega. Páskaeggið var þar fyrir innan!